Háskóli Íslands

Sound of Vision verðlaunað í Nýsköpunarkeppni ESB

Evrópska rannsóknarverkefnið Sound of Vision hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018, sem afhent voru í Vín þann 6. desember 2018.

Sound of Vision hlaut styrk upp á fjórar milljónir evra úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins Horizon 2020 árið 2015, en verkefnið stóð yfir í þrjú ár og lauk 2018. Markmið verkefnisins er að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt.

Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, stýrði verkefninu, en auk hans koma Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild, og hópur nýdoktora, doktorsnema og rannsóknarmanna innan skólans að verkefninu ásamt Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og verkfræðingum frá háskólum og stofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum, Rúmeníu (University Politehnica of Bucharest), Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi.

Níu önnur verkefni kepptu í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ en Sound of Vision komst í úrslit eftir kosningu almennings. Hlaut þá Sound of Vision fyrstu verðlaun í sínum flokki eftir að hafa kynnt það fyrir framan dómnefnd sérfræðinga.

Myndband sem skýrir virki búnaðarins

Heimasíða Sound of Vision

Sjá einnig frétt frá Háskóla Íslands

Hér er einnig hægt að sjá verðlaunahafa í öðrum flokkum Nýsköpunarverðlauna ESB.

Verkefnastofa óskar Sound of Vision innilega til hamingju með verðlaunin.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is